Framkvæmd og reglur um heimtöku sauðfjár

Framkvæmd og reglur um heimtöku sauðfjár

Allar pantanir fyrir heimtöku skulu berast eigi síðar en degi áður en slátrað er.

Hvert á pöntunin að berast - Það er mjög mikilvægt að pantanir á heimtöku komist tímanlega og skilmerkilega til skila. Hægt er að senda inn pöntun með tölvupósti á svenni@skvh.is . Þeir sem ekki eiga kost á því að senda tölvupóst, senda upplýsingar á sér blaði með bílstjóra (mikilvægt að upplýsingar sé tilbúnar til afhendingar þegar bílstjóri kemur á staðinn) þegar fé er sótt. Þeir sem keyra sjálfir koma upplýsingum til þess sem tekur á móti fé í réttinni við afhendingu. Hér PDFeða Hér EXL er einnig hægt að nálgast heimtökueyðublað til útprentunar.

Flokkur eða gerð og flokkur eða gerð til vara - Taka þarf skýrt fram að ef, segjum sem dæmi, viðkomandi innleggjandi vill fá allt heimtekið sem fer í fituflokk 4 og 5 að það sé þá tekið fram að hámarki hversu marga skrokka. Því miður kemur oft fyrir að teknir eru frá allir sem fóru í fituflokk 4 og 5 og svo kemur í ljós að innleggjandi vill ekki nema fá helming af frátekinni heimtöku. Eins öfugt að ef ekkert fer í tiltekinn flokk, sem beðið er um heim, að þá sé tekið fram að ef ekki flokkist í þann flokk að fá þá einhverja aðra tiltekna skrokka (flokka) í staðin. Undantekningar tilfelli eru um að skrokkar sem eiga að vera heimteknir fari í úrkast. Í þeim tilfellum er ekki settur annar skrokkur í heimtöku í staðin nema það sé tekið sérstaklega fram.

Sögun - Taka þarf skýrt fram hvort eigi að saga heimtökukjötið og hvernig. Hvort skrokkar eigi að vera frosnir eða ófrosnir við afhendingu, heilir, í 7 parta sögun eða fínsögun. Gert er ráð fyrir að skrokkar sem fara í fínsögun séu frystir fyrir sögun. - 7 parta sögun er þegar skrokkur er hlutaður í; læri heil (2), hryggur heill (1), frampartar heilir (2) og slög heil (2) = sjö hlutar. Athugið að hækill er hafður á lærum í 7 parta sögun. Allt umfram þessa sögun er fínsögun. Taka þarf sérstaklega fram, þegar um fínsögun er að ræða, ef hækillinn á að vera á lærunum. Hækillinn er annars sagaður af.
ATHUGIÐ! eftirásögun er ekki í boði

Úrbeining - Ekki er boðið upp á úrbeiningu

Frágangur - Heimtökuskrokkum er pakkað, hverjum skrokk fyrir sig, í sér poka. Í hverjum poka er svo hver hluti fyrir sig í sér poka, læri sér, hryggur sér, súpukjöt sér o.s.frv. Athugið að t.d. hryggur sem sagaður er í kótilettur fer allur saman í einn poka, læri sem fer í sneiðar fer allt saman í einn poka o.s.frv. Ef bæði slögin eru heil fara þau saman í einn poka. Taka þarf fram ef saga á hrygg hvort hann eigi að fara í þverkótilettur eða kótilettur. Heilir skrokkar eru pokaðir og grisjaðir.

Afhending - Taka þarf fram ef innleggjandi vill láta senda sér kjötið og hvert. Innleggjandi greiðir kostnað við sendingu. Ef senda á til þriðja aðila bætast 1000 kr án/vsk við hverja sendingu(þennan kostnað greiðir innleggjandi ekki viðtakandi). Afhending á heimtöku verður á 3 til 4 virkum degi frá slátrun milli kl. 10:00 – 12:00 og 13:00 – 14:30 norðast í sláturhúsinu. Geymslugjald verður sett á þá heimtöku sem ekki er sótt á tilsettum tíma. Geymslugjald fyrir skrokk er kr. 2.947.- pr mánuð í geymslu.

Hafa ber í huga að ef beiðni fyrir heimtöku skilar sér ekki fyrr en sama dag og slátrað er eða eftir að slátrun á sér stað þá áskilur SKVH sér þann rétt að verða ekki við heimtökunni.

Samantekt heimtöku:
• Pöntun daginn fyrir slátrun.
• Hvaða flokka/skrokka.
• Hversu marga skrokka.
• Til vara flokka/skrokka.
• Sögun.
• Afhending.